Samheldið og öruggt samfélag



Sagt er að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn. Á Hvolsvelli er lagt mikið upp úr því að skapa samfélag þar sem börnin upplifi áhyggjulausa æsku og fái að blómstra. Á Hvolsvelli og í nærsveitum þekkjast allflestir og fólk er upp til hópa samheldið og hjálpsamt. Ef þú þarft nauðsynlega að komast í apótek um helgi og ef það er lokað þá er því bara reddað. Fótgangandi fólki er iðulega boðið far ef einhver keyrir framhjá. Kvenfélags- og kórastarf í sveitarfélaginu er öflugt og á hverju hausti er haldin Kjötsúpuhátíð, sem er eins konar uppskeru- og bæjarhátíð þar sem fólk gengur milli húsa og þiggur kjötsúpu og aðrar veitingar.



Rík fótboltamenning    



Mikil fótboltamenning ríkir hjá krökkum í sveitarfélaginu. Knattspyrnufélag Rangæinga KFR hefur til að mynda alið af sér fimm konur sem spilað hafa með A-landsliði Íslands í fótbolta; Dagný Brynjarsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir, Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir, Hrafnhildur Hauksdóttir og Karítas Tómasdóttir. Á Hvolsvelli er góð aðstaða til að stunda íþróttir og fyrirhuguð er uppbygging á íþróttasvæðinu til að bæta um betur. 


Almennt um sveitarfélagið


Rangárþing eystra nær frá Eystri-Rangá í vestri að Jökulsá á Sólheimasandi í austri. Í Rangárþingi eystra er að finna einstakar náttúruperlur en svæðið er einna þekktast fyrir að vera aðalsögusvið Njálu.
Í sveitarfélaginu búa um 1800 manns en þar af búa rétt rúmlega 1000 manns á Hvolsvelli. Helstu atvinnuvegir eru landbúnaður, hrossarækt og ferðaþjónusta en á Hvolsvelli rekur Sláturfélag Suðurlands eina stærstu kjötvinnslu landsins. Hvolsvöllur hefur þá sérstöðu að vera eitt af fáum þéttbýlum á Íslandi sem ekki hefur verið byggt upp við sjó eða árfarveg heldur er þéttbýlið algjörlega byggt upp sem miðstöð fyrir þjónustu.


Aðrir punktar um sveitarfélagið



Það eru nánast óteljandi ástæður fyrir því að flytja á Hvollsvöll, hér eru bara nokkrar í viðbót:

  • Mjög góð aðstaða er á dvalar- og hjúkrunarheimilinu á Hvolsvelli og biðlistar eru ekki langir.
  • Öll börn fá vinnu í unglingavinnunni, 2 mánuði lágmark - ekki bara 2 vikur eins og í Reykjavík.
  • Njálurefillinn, sem er 90 metra langur og tók sjö og hálft ár að gera, er til sýnis í Lava Center.
  • Á Hvolsvelli er vinsæll folf-völlur, ærslabelgur og fjölmörg leiksvæði fyrir börn.
  • Unnið er að uppsetningu fleiri hleðslustöðva fyrir rafbíla á Hvolsvelli.





Skólabíllinn



Börn sem búa í dreifbýli, utan við Hvolsvöll, eru sótt með skólabílum á morgnana og að loknum skóla og tómstundum er þeim ekið heim. Skólabílar fara tvær ferðir heim á dag og geta börnin valið hvort þau fari heim strax eftir skóla eða sinni íþróttum eða öðrum tómstundum og taka seinni bílinn. Elsti árgangurinn í leikskólanum hefur kost á að koma með skólabíl á Hvolsvöll. Öllum börnum stendur til boða að nýta sér skólabílinn endurgjaldslaust.