Íslandsmeistarar í logni



Sagt er að mesta lognið á landinu sé að finna á Hvolsvelli og í nærsveitum. Bæjarstæðið er þekkt fyrir mikla veðursæld enda er gróðursælt í bænum og bæjarfjallið Hvolsfjall veitir gott skjól fyrir norðandvindinum. Borgþór H. Jónsson veðurfræðingur var eitt sinn spurður hvar best væri að búa í ellinni. Hann  var fljótur að nefna Hvolsvöll sem fyrsta kost því þar væri mesta veðursældin á öllu landinu.



Tónlist og menning



Það kemur mörgum á óvart hvað það er blómlegt tónlistarlíf í sveitarfélaginu. Tónlistarskóli Rangæinga er mjög öflugur skóli og kennir fjöldi góðra kennara við hann. Í bæjarfélaginu eru líka oft haldnir fjölsóttir tónleikar á tónleikastaðnum Midgard, en þar spilar reglulega margt af helsta tónlistarfólki landsins. Tónlistin er fyrir alla og í sveitarfélaginu eru t.d. starfandi karlakór, kvennakór, barnakór, kór eldri borgara og kammerkór.

Íþróttafélagið Dímon

Íþróttafélagið Dímon er öflugt íþróttafélag sem býður fjölbreytt úrval íþrótta. Meðal íþrótta sem eru í boði eru meðal annars; körfubolti, badminton, fimleikar, taekwondo, blak, glíma, borðtennis, sund, frjálsar íþróttir og íþróttaskóli fyrir 4-5 ára. Það besta er að á Hvolsvelli þurfa foreldrar ekki að skutla eða sækja á æfingar eða í aðrar tómstundir.