Öll eins árs börn fá leikskólapláss 



Á Hvolsvelli fá öll börn, sem náð hafa eins árs aldri, pláss á leikskóla og í bæjarfélaginu er að finna eitt hæsta hlutfall menntaðra leikskólakennara. Hér eru engir biðlistar og engin óvissa og boðið er upp á skólaakstur fyrir elstu leikskólabörnin. Á síðasta ári barna í leikskólanum Örk hefja þau aðlögun fyrir skólagöngu í Hvolsskóla. Þau fara í skólaheimsóknir einu sinni í viku og þegar stóra stundin rennur upp þekkja þau orðin hvern krók og kima í Hvolsskóla.



Lóðir í leit að vönduðum eigendum



Á Hvolsvelli eru fjölmargar lóðir lausar til umsókna, bæði íbúða-, atvinnu- og hesthúsalóðir. Áhugasamir geta skoðað lóðirnar á www.hvolsvollur.is eða fara beint á kortavef sveitarfélagsins www.map.is/ranga Munið að haka í box í valmyndinni efst í hægra horninu og þá birtast lausar lóðir í lituðum reitum. Hægt er að sækja um lóðirnar beint í gegnum kortavefinn með því að smella á viðkomandi lóð.

Hlið að hálendinu

Í Rangárþingi eystra og á Suðurlandsundirlendinu er að finna margar fallegustu náttúruperlur landsins. Í sveitarfélaginu eru svartar fjörur, nafntogaðir fossar, mikilfengleg fjöll, beljandi jökulfljót, skríðandi jöklar og virk eldfjöll. Íbúar svæðisins hafa Þórsmörk og Fjallabakssvæðið  hreinlega í bakgarðinum og það skal engan furða að um Suðurlandið fari mestur hluti ferðamanna sem koma til landsins. Rangárþing eystra er miðsvæðis á Suðurlandi og er því ákjósanlegt svæði til uppbyggingar á atvinnustarfsemi tengdri ferðamennsku.